Brauðin okkar eru súrdeigsbrauð sem innihalda nýmalað hveiti sem er lífrænt ræktað frá Frakklandi, og nýmalað bygg frá Vallanesi, sjávarsalt og vatn.
Kornið
Við flytjum inn lífrænt ræktað korn frá suðvestur Frakklandi sem er gamalt afbrigði hveitikorns. Þetta afbrigði var til fyrir 1950 (kallað heritage wheat á ensku) og hefur aldrei verið blandað öðrum kornum.
Svona korn inniheldur meiri næringarefni, hefur í sér veikara glúten og er bragðríkara en hefðbundið fjöldaframleitt korn. Hveitiplantan sjálf er harðger með mikla aðlögunarhæfni.
Fræin eru fáanleg á frjálsum markaði, og mega bændur sá þeim til fleiri ára eins og hægt var að gera með önnur fræ fyrir þriðju landbúnaðarbyltinguna (enska: green revolution).
Myllan
Steinmyllan okkar er smíðuð í Frakklandi, nefnd eftir bræðrunum Astrié sem hafa þróað þessa tegund myllu.
Öfugt við stóriðnaðar-myllur sem kremja kornið, opnar mylla Astrié bræðra það og skefur í lögum, þannig verður hið fullkomna hveiti til af eftirfarandi ástæðum:
- Allt sem er í korninu skilar sér í hveitið, ekki bara kjarninn, heldur líka klíðið og kímið sem innihalda mest næringarefnanna (vítamín, steinefni, andoxunarefni, fitusýrur og prótein).
- Hveitið hitnar ekki í ferlinu og viðheldur því þessum næringarefnum.
- Auk þess er hveitið ávallt nýmalað fyrir bakstur, sem fullvissar okkur um gæði þess, því með geymslu missir hveitið smám saman næringargildi sitt.
Ofninn
Ofninn okkar er sérsmíðaður eftir franskri fyrirmynd og var byggður á Böggvisstöðum í Svarfaðardal haustið 2018. Hann vegur 50 tonn og er hitaður með timbri úr nærliggjandi skógum.
Þegar búið er að hita ofninn er hann þrifinn og brauðin eru sett inn. Hitinn í steinunum bakar því brauðin.
Kjöraðstæður til brauðbaksturs skapast í svona ofni því hitinn tapast mjög hægt úr steinunum og brauðin verða því mjög jafnt bökuð.
Vegna þess hve hitinn helst vel, er hægt að baka ýmislegt annað eftir brauðbaksturinn, t.a.m. sætabrauð, smákökur og marengs, án þess að hita hann upp á milli.